Friday, February 17, 2012

Vináttan

Gráferskt morgunloftið tók á móti mér þegar ég lauk upp dyrunum. Eins og köld sæng sem hefur verið viðruð í vorloftinu sem þú rífur af snúrunni og faðmar fast þá langaði mig að taka þennan morgunn í fangið á mér og kremja hann í örmum mér. Ég hafði lifað þónokkuð marga laugardagsmorgna um ævina en sjaldnast nýtt þá í dularfullt miðbæjarrölt. Hví nú? Hví ekki að halda uppteknum hætti?

Upptekinn háttur: 
Söðla um í blekkingarleiknum ógurlega sem hefst á föstudagskvöldum. Raða ofan í bleiku íþróttatöskuna ræktarfötunum á hnitmiðaðan hátt. 
Reyna að telja sér trú um að fjólubleiki adidas toppurinn sé ekki of fleginn fyrir ræktina og að þú ætlir algjörlega að mastera það átfitt í leikfimi á morgunn.
Setja niður annan íþróttatopp því þú veist að þú ferð síðan ekkert í skvísudæmið þrátt fyrir háleitar hugmyndir á aðfaranóttu æfingar. 
Setja niður hettupeysu því ekki viltu vera að menga augu meðræktarmanna með snjóhvítum, vantónuðum handleggjum. 
Stilla vekjaraklukku á óguðlegan tíma. 
BÁÐAR! 
Vera með 80.000 afsakanir á reiðum höndum fyrir því að að sé hrikalega óþroskuð hugmynd að mæta í Hreyfingu á því augnabliki sem vekjarinn hringir. 
Vakna eftir hádegi, teygja sig og toga, strjúka kviðinn og hefja hefðbundna hárreytingu sem endurspeglar áhyggjur þess efnis að ræktartaskan standi enn óhreyfð á miðju gólfi. 
Að vakningu lokinni telja sér trú um að ekki sé hægt að fara í ræktina að svo stöddu því aðeins séu 5 klst í lokun.

Hví ó hví?

Gamall vinur hafði óskað eftir aðstoð minni við val á fatnaði fyrir kvöldið. Við höfðum fyrir löngu síðan átt eitt kvöld saman, kvöld sem fékk mig til þess að efast um eigið ágæti í örskamma stund, kvöld sem ég hafði grafið og geymt. En ekki...

Vinátta. Hvernig virkar hún eftir svona uppákomur?

Þurr mölin tvístraðist undir flatbotna skónnum, úði féll og væða tók. Líf kviknaði á Laugaveginum. Ég sá hann nálgast óðfluga úr fjarska röskum skrefum. Hélt niðri í mér andanum. Líklegast var þetta rómantískasta órómantíska stefnumót sem ég hafði nokkurn tíma farið á. Regnið sem hafði gert sér það að góðu að setjast að í hárinu á mér eyðilagði annars ómögulegt hárið á mér, varð villt og úfið, en mér stóð á sama því ég þurfti ekki að vera óaðfinnanleg á þessari stundu. Fólkið var fullkomið, Laugavegurinn líflegur og regnið róaði mig.
Ég hafði gleymt hversu erfitt var að horfast í augu við hann. Brúnt og svart mættist í óraunverulegum skýrleika. Við gengum hægum skrefum í átt að engu. Fundum allt sem við leituðum að nema nákvæman tilgang þessarar verslunarferðar.



Takmarkinu hafði verið náð en við vildum ekki skilja hvort við annað. Við höfum staðnæmst á miðju Ingólfstorgi á meðal miðbæjarrottanna sem þutu framhjá okkur hver af annarri líkt og þúsundir rafeinda í leit að plús. Við vorum tvær óhlaðnar eindir, núllstilltar og leituðum einskis.

Regndropi draup niður á dökk augnhárin, sem við það blikkuðu tíðar. Dropinn lagði leið sína niður kinnar hans og minnti á líðandi tár. Tár sem aldrei yrði grátið mín vegna. Á þessu augnabliki leyfði ég mér að horfa á hann án þess að skammast mín. Ég virti fyrir mér línuna sem kjálkabeinið myndaði undir sléttri húðinni, svart sítt hárið, dökka augnumgjörðina og svartnættið í augum hans sem fangaði mosann í mínum. Hann steig skrefi nær mér svo ég gat heyrt taktfastan andardráttinn dynja á mér. Stakk svo upp á kaffi.



Ég var ekki þessi gerð sem fékk sér rándýran Americano en gerði það samt. Því í dag var ég ekki ég. Ég var Anna tveimur árum áður, hún gerði þessa hluti. Hún gerði það sem skilgreindi allt annað en hana. Hún var þessi gerð fyrir hann. Bara fyrir hann.

Nóttin í augum hans varð myrkari með hverjum sopanum á eftir öðrum svo ég gat ómögulega ráðið hvar svart hófst og brúnt endaði. Birtan í brosi hans lýsti upp andlit hans og skein á mig, blindandi svo ég átti erfitt með að stíga inn í rökkvaða spegla sálar hans. Við ræddum hluti sem óhætt var að ræða við manneskju sem hafði mörgum mánuðum áður haldið jafn fast utan um þig og þú um hana. Ómerkilegir hlutir. Óraunveruleg vandamál. Hann brosti sínu breiðasta og ég fann hvernig þörf mín fyrir samþykki hans jókst.

Hann reisti aðra höndina og strauk bikasvörtu hárinu á bakvið annað eyrað og horfði stíft á mig. Nappaði sjálfa mig við hið glæpsamlega athæfi að óska þess í hljóði að hann hefði strokið mínu hári á sama hátt.

Vinátta.

Ég hafði aldrei verið sérstök í hans augum. Hví nú? Svarið við þeirri spurningu var að ég var það ekki nú og hafði aldrei verið það. Við kvöddumst á þurran máta á annars votum degi. Snertingarleysið öskraði á mig svo það frussaðist yfir mig, við seinni athugun voru það líklegast þó bara rök veðuröflin. Ég gekk frá honum skælbrosandi upp í móti. Leiknum var lokið.

Erum við ekki flest öll sek um að hafa samband við löngu útbrunna loga sem eitt sinn dönsuðu dátt í stónni? Í þetta sinn var ég eldiviðurinn, þó ekki útbrunnin. Það má alltaf kveikja nýjan neista.. hins vegar er vonlaust að hita upp gamla ösku.

Anna Ýr

Wednesday, February 1, 2012

Hvergilandið

Tómt blað. Þetta er ekki einu sinni blað. Tilhugsunin um fjaðurpenna kitlar mig í nefið. Hvað varð um gömlu góðu  blekdollurnar, ritvélarnar og tippexið? Hvenær varð gamalt gamalt og nýtt nýtt?



Ég lít upp frá hinu galtóma blaði og við mér blasir sérkennileg sjón: Harpa skarpa á kafi inni í hinum virðulega ísskáp öll á ská og skjön á fullu að leysa eitthvað verkefni. Harpa hverfur lengra inn í ísskápinn svo ég varla sé í litla græna kjólinn hennar lengur. Þessi annars annkannalega sjón fær mig til þess að velta því fyrir mér hvort að ísskápurinn gæti verið anddyri inn í næstu veröld. Mig langar þá með. Hún keypti jú óhugnalegt magn af piparosti um daginn sem gæti hafa verið dulbúinn farmiði inn í þetta undraverða undraland. Ég toga aðeins í hárið á mér og nudda á mér augun.
"Það er allt að frjósa inni í þessum skáp" Harpa er greinilega ekki að borga sig inn með piparosti og ég er ekki að fara að hitta Michael Jackson í Hvergilandi.
"Ef að ég er að hækka þá er ég að lækka... eða bíddu" Harpa grunar ísskápinn um græsku.
Góði eiginmaðurinn sem ég er, stendur upp og sinnir henni. Hún er ekki sátt við blekkingarmátt ísskápsins sem hefur miskunnarlaust ruglað hana í ríminu og skellir hurðinni aftur. Ég kveð Michael í hljóði. Ég vernda karlmennsku mína líkt og eigið hold og blóð, þykist vita nákvæmlega hvað amar að ísskápnum og geng stolt frá loknu verki.


"Hvað segirðu?" Roðinn í kinnum hennar dofnar og græni liturinn í kjólnum spilar aðalhlutverkið á ný. Ljúfan sem hún er sest niður og hlustar á ómerkilegt rausið í mér.
"Það fékk mig virkilega til að hugsa" segi ég. "Ég hitti fyrir konu í dag. Hún sagði mér að það mætti enginn vera gamall á Íslandi í dag. Það væri ekki í tísku og að hér á landi væri æskudýrkun og vegna þessa væri hún undir miklu álagi. Er það satt?"
Konan sem ég þekkti ekki. Konan sem var um fertugt. Konan sem var alvöru kona. Konan sem var falleg. Konan sem hafði ekki hugmynd um það. Á fertugsaldri. Með verulegar íþyngjandi áhyggjur.




Hvað er Ásdís Rán gömul? Hversu gömul lítur hún út fyrir að vera?

Gerviaugnhár, gervibrúnka, barbítennur, litað hár, sléttað hár, krullað hár, klístrað gloss, vöxuð píka (já ég sagði píka og vax líka -  í sömu setningu), gervineglur og síðast en ekki síst gervibros.

Höldum áfram.. tómt wordskjal, tómt blað, gömul ritvél, fjaðurpenni?

Ég tilbið fallega gamla ritvél og fjaðurpenna af gamla skólanum sem kitlar mig í nebbann.



Hendi niður wordskjalinu sem er ekkert nema ómerkilegur gervipappír.

Ég hef í gegnum tíðina stundað þessar fegrunaríþróttir af kappi og ég mun ekki hægja á. Því þá hef ég ekki möguleikann á því að öðlast tímabundna fegurð lengur. En vissulega fær þetta mig til að hugsa. Þarf ég allt þetta til þess að finnast ég falleg þegar ég horfi í spegilinn, er ég tilbiðin ritvél eða er ég tómt wordskjal?

Því verður ekki svarað að sinni.

Eníbení