Tuesday, April 23, 2013

Kroppastoppið

Hafið þið lent í STOPPI? Þá meina ég Kroppastoppi? Ég lenti í svoleiðis fyrir rúmri viku. Búin að vera að gera allt rétt en ekkert gerist! Hversu svekkjandi? HVERSU? Mjög...
Nema svo áttaði ég mig á því að þetta var bara allt mér að kenna en ekki ósamvinnuþýðum skrokki. Það er víst þannig að helgarnar (föstudagskvöld-laug-sun) eru um það bil þriðjungur af vikunni. Er þá ekki allt í lagi að fá sér ís á föstudegi, borða steik og fara á djammið á laugardegi og svo taka þynnkumat á sunnudegi og nammi, detta svo inn í fullkomna viku næstu 4 daga og ná frábærum árangri! Hmmm..
Ekki alveg.
Ég átti alveg að vita þetta en var ekki búin að ná alveg tökum á þessum blessuðu helgum sem virðast alltaf setja mann í einhvern óhollustu rússíbana án þess að maður átti sig nokkuð á því fyrr en á mánudegi þegar öll vinna síðastliðnar viku virðist fyrir bí.



Ráð til þess að ná tökum á helgunum:

Takmarka djamm eða taka edrú-djamm og massa vatnsdrykkjuna í staðinn fram á rauða nótt :)
Ræktin er þinn besti vinur um helgar.
Hafa nóg fyrir stafni.

Átta sig á því að föstudagur er VIRKUR dagur.
Líklegt er að kræsingar bjóðist á laugardegi eða sunnudegi og er þess vegna betra að eiga slíkan munað inni.
Gera allt til þess að komast í ræktina eftir vinnu, þá er ekki jafn gaman að "eyðileggja" ræktina með svindli.
Fá sér eitthvað óvanalegt í kvöldmat en gæta hófs og hollustu.
Útbúa exótíska ávaxtaskál með spennandi berjacombói

Vertu þessi týpa á föstudagskvöldum

Laugardagar eru nammidagar! Er það ekki? Nei, ekki nema þú viljir að það sé svindlið þitt.
Vertu búin að hugsa út í það hvað verður svindlið þitt. Verður það ís, nammipoki, snakk eða jafnvel sveitt máltíð? Þú mátt ekki fá allt! Verður að velja og velja rétt :)
Nammið má ekki duga fram á næsta dag. Því að þá er næsta víst að það verði klárað daginn eftir. 
Þú þarft ekki að velja svindl ef þig langar það ekki. Ekki gera það bara af því að þú "átt" að gera það. 
Reyndu að takmarka svindltímann við nokkrar klst en ekki allan daginn.
Frábært að henda inn góðri brennslu inn í nammidaginn. Þá líður manni ofsalega vel í svindlstundinni. Eftirbruninn í lærunum alveg þvílíkt að vinna á lakkrísnum!!! ;)

Ekki vera þessi gæi á laugardögum

Sunnudagar eru framhaldsnammidagar er það ekki? Nei. 
Hvar er nammipokinn/snakkpokinn frá því í gær? Þú átt annað hvort að segja að hann sé búinn eða að þú vitir ekki um hann því þú baðst einhvern um að fela hann fyrir þér rétt áðan. Húsleit er ekki í boði heldur. 

Frjálst að skipta út sunnudegi/laugardegi að vild :)


Ég fékk mér nammi í gær, þó ekki þetta týpíska heldur "hollustunammi". Vissulega er það stútfullt af kaloríum en mér líður miklu betur af því heldur en Hagkaupsnamminu.

Mmmm namm jógúrtbananar!

Blandað við Wasabi hnetur!! Sjúkt gott!

Virkilega góð helgi að baki, hlakka til að takast á við komandi viku :)


Anna











Wednesday, April 17, 2013

Húsmóðirin lætur til sín taka

Hef verið ansi myndarleg í eldhúsinu upp á síðkastið og langar að deila með ykkur einfaldri og góðri uppskrift að niðurskornu epli með hjálp EP3000 = EPLASKERI 3000. Ég verð nú bara hreinlega að deila þessari endalausu snilld með ykkur! Nei okei hann heitir ekki svona kúl nafni, þetta er bara venjulegt plastdót úr IKEA.. en mikið er ég hrifin af þessum einfalda hlut. Ég tók sem betur fer myndaseríu af þessu fyrir ykkur svo þið mynduð skilja hvað ég væri að tala um. 

Uppskrift að niðurskornu epli

 Til vinstri á myndinni má sjá grænan eplaskerann og þetta rauða á myndinni er safaríkt FUJI epli úr hagkaup. Verið viss um að rugla ekki þessu tvennu saman. 

Nú stillum við upp eplaskeranum ofan á mitt eplið og voila! Komið fallegt eplablóm!  

Losum eplið úr EP3000 og njótum. Afar hentugt líka fyrir gæludýraeigendur eins og mig sjálfa sem eiga kött sem að borðar ávexti. Hagstæðara er að hafa niðurskorið epli í stað þess að hafa óniðursneitt epli svo að kötturinn geti fengið einn bát en ekki byrjað að sleikja allt eplið! Þá eru góð ráð dýr og þá meina ég að ég fer á hausinn ef að kötturinn ætlar að fara að slátra heilu Fuji epli.


Verði ykkur að góðu 
Ykkar ráðagóða Anna



Tuesday, April 16, 2013

38 ára mítan

Löngu löngu löngu kominn tími til þess að dusta rykið af þessari blessuðu bloggsíðu! Ég held ég hafi verið tuttuguogeitthvað þegar ég kom hingað inn síðast.. er það jú víst ennþá en upplifi mig eitthvað svo hrikalega gamla núna þegar ég er að fara að slefa upp í 27 ára. Líður eins og ég geti bara sleppt þessu og orðið þrítug næst fyrst ég ætla að láta svona! Enda er 27 algjörlega tilgangslaus aldur.. annað hvort eiga menn að vera 20, 25 eða 30. 

Ég er nokkuð viss um að ef ég væri bara orðin þrítug þá væri fólk líka búið að gefast upp á því að ég færi að skjóta út kríli. Á þessum gullna aldri 25-30 þá er maður dæmdur til þess að vera farin að huga að barneignum en þegar menn eru orðnir 30 þá er fólk farið að gruna að mann langi kannski bara ekkert í krakka. Ég velti þessu stundum fyrir mér þar sem fólk virðist skjóta því að á ótrúlegustu tímum að ég sé nú farin að spá virkilega í þessu sem er alls ekki raunin en ég er búin að fá staðfest frá kvensjúkdómó að ég þurfi ekki að hafa neinar áhyggjur af fersku eggjunum fyrr en ég verð 38 ára gömul. Fékk nefnilega smá ótímabært æðiskast um daginn þegar ég þurfti að fara í "sónar".. já það var nú ekki tilkomið vegna sníkjudýrs í mallakút heldur blöðrubólgu. Þá var mér tilkynnt af kvensjúkdómó að fersku eggin væru skoppandi kát í eggbúinu sínu tilbúin að láta frjóvga sig. Það eina sem ég heyrði var: "Sjáðu öll þessi fínu egg sem eru AÐ DEYJA SMÁTT OG SMÁTT" arrrrg!! En ég var svo róuð niður með 38 ára mítunni og hef ekki leitt hugann að þessu lengi. 



Það sem að kvensjúkdómó sá

Það sem að ég sá fyrir mér


En ég þarf nú víst ekki að hafa miklar áhyggjur af því að verða gömul þar sem að ég er víst enn spurð í sundi hvort ég sé orðin 17 ára. Þó ekki jafn hentugt þegar maður sækir um vinnu og fólk heldur að maður sé enn í menntaskóla. Þetta er svona win-lose situation. Ég mun kunna að meta þetta síðar.

En það sem að er svona aðallega í gangi hér á þessum bænum er að sjálfsögðu að halda ungleikanum í hámarki. Fer ekki út úr húsi án þessa gimsteins:

Sem sagt brúsinn a.k.a. "Skvísan" en ekki gervi-kaktusinn mér fannst hann bara passa svo vel við þessa grænu kaktusa svo ég ákvað að taka svona lekkera mynd af þessu saman. Bæði er þetta jú svo hollt og gott! Vatn í brúsa og öööö.. gervikaktusar..  nevermind..

Ég er alls ekki hissa á því að þið skiljið ekki afhverju ég kalla brúsann minn "Skvísu". Ég mætti nefnilega á Herbalife ráðstefnu um daginn og þá var endalaust verið að tala um einhverja skvísu sem væri í verðlaun. Maðurinn stóð uppi á sviði með pakka fullan af herbalife-dóti og sagði alltaf "já og svo er að sjálfsögðu skvísa með í pakkanum"... hmmmm skvísa? Er þá mynd af skvísu? Er dagatal í þessu með skvísum? Svona pepp fyrir herbalife fólkið að sjá flottar skvísur!!! Já ég skil þetta núna! Maðurinn sem gaf verðlaunin átti líka kærustu sem var algjör skvísa svo hann hlaut að vita hvaða konur væru skvísur og hverjar ekki! Aldeilis!
Ég spurði stelpuna við hliðina á mér samt til öryggis og hún sagði mér að það væri brúsinn.. squeeze = skvísa.  Ahaaaa því maður kreistir brúsann sjáiði til. Já ég veit ég er alltaf seinust að fatta allt! 

En þrátt fyrir allan skvísumisskilning þá er ég ekkert að misskilja vatnsþörfina mína á hverjum degi sem er 2L í það minnsta. 8 lítil glös af vatni eða svona ca 4 brúsar af skvísu! Það er samt bannað að svindla og gúlpa í sig heilum í einu! Trikkið er að vera að súpa allan daginn. Þá höldum við vatnsbúskapnum í góðu jafnvægi og aukum brennsluna. Hver vill ekki brenna meiru bara með því að drekka vatn! Réttiði upp hönd! Jæja ég er farin að hljóma eins og Marteinn Lúther.. ætla að fara í ræktina með mömmu minni sem ætlar að kjötsnyrta barnið sitt í Laugum á þessum fallega degi!

Ræktarlag vikunnar, eitt gamalt og gott!:




Hvet alla til að drekka meira vatn!!
Gleði gleði!

Knús 
Anna