Afhverju átti ég svona mörg stykki? Heil hrúga af þeim í botni fataskápsins. Vitræna.
Þessar dökkbláu störðu á mig með fíngerðu sikk-sakk augnaráði. Þær höfðu ekki umvafið mig í hálft ár að minnsta kosti. Ég hlýt að vera að tapa glórunni. Gallabuxur geta vissulega valdið mannorðssviptingu komi menn þeim ekki upp um sinn óæðri enda, en þær eru alls kostar ófærar um að horfa á nokkurn mann.
Skyndilega birtist önnur skálmin út á mitt plastparketlagt gólfið. Örvæntingarfullt hjarta mitt sló í takt við aðstæðurnar. Líkami minn staðnaði í augnablikinu en heilabúið hafði aldrei verið jafn árvökult og nú. Skálmaropið dró sig saman, hægt en ákveðið og myndaði ógnvænlega öfugsnúna skeifu. Tók það síðan óvænta stefnubreytingu og virtist undir lokin brosa til mín á værukæran og móðurlegan máta.Mér tókst að sýna merki um meðvitund og tyllti höfðinu til hliðar.
"Viltu ekki prófa?" mælti buxnaskálmin pollróleg.
"Prófa?" svaraði ég án þess þó að botna nokkuð í því afhverju ég sæti hér varnarlaus á rúminu mínu, kviknakin, nývöknuð og snargeðveik að vanda haldandi uppi stórundarlegum samræðum við ítalskar gallabuxur.
"Ég held þú komist í." segir skálmin siðblinda. Dauðir hlutir hafa ekkert með það að gera að vera að tjá sig á fimmtudagsmorgnum.
"Því trúi ég nú tæplega mín kæra" segi ég og fyllist skammvinnum viðbjóði þegar ég horfi niður á lær mér. Glætan! Næsta víst er að ég rís upp steinhissa á því að hríðskjálfandi leggirnir beri mig og leiði mig í humátt að nærfataskúffunni. Svart, svart skal það vera í stíl við þetta frábæra morgunatriði þrátt fyrir marga litríka möguleika. Mér verður litið í spegilinn, sem sýnir mér grámyglaðan og hversdagslegan raunveruleika haldast í hendur í annars saklausum nærfötum. Ákveð að hegna sjálfri mér við betra tækifæri fyrir það eitt að geta ekki einu sinni verið glaðleg innan klæða.
Ríf málglöðu brækurnar upp af gólfinu og treð mér í þær með offorsi svo ég þaggi örugglega í þeim og endurheimti heilbrigt geðrænt ástand að nýju. Mér til mikillar undrunar komast þær upp um mig. Jókerinn hefur líka verið unninn á þessum lottómiða því að ég get líka hneppt! (yesss!) Mér rennur reiðin samstundis og strýk lærin í þeim tilgangi að þakka buxunum greiðann, munnræpuna og frekjuna.
Heilsuátakið mikla hefur nú varað í rúmar tvær vikur og ég gleðst mikið yfir litlum sigrum líkt og þessum.
Það er eins gott að ég fái fría heimsendingu af svona draumaprins með næstu gallabuxum! :)
Veriði óhrædd lömbin mín, ég mun aldrei tala við gallabuxurnar mínar fyrir framan ykkur. En í guðs bænum ekki þagna! :)
Kveðja,
Anna létt á brá!
Thursday, January 26, 2012
Tuesday, January 24, 2012
Forboðinn laugardagur
Innyflin eru klóruð úr mér, hvert á eftir öðru. Má skeifugörnin að minnsta kosti verða eftir? Svo svangi maginn minn fái aftur að borða, geriði það?
Kunnuglegt en jafnframt pirrandi væl í eyrum mínum fær mig til þess að rísa upp frá dauðum. Ofurlítil skíma af dagsljósi sleppur inn fyrir augnlokin í annars rökkvuðu svefnherbergi. Það rennur upp fyrir mér að ég geymi enn öll iðrin mín í einangruðu svartholi sem ég kýs að kalla maga í hversdagslegu tali. Í framhaldi af því skáskýt ég glyrnum mínum að kisa sem starir sakleysislega á mig tilbaka, teygir úr sér líkt og til þess að gera jafn lítið úr aðstæðunum og hann getur, plantar sér síðan góðlátlega ofan á andlitið á mér án þess að gera sér nokkurra grein fyrir því að ég er enn að jafna mig eftir "spiderman catwalk" atriðið vinsæla sem á sér stað reglulega undir rúminu mínu.
Ég var aldrei venjuleg, hvorki í dag né í gær. Velti því fyrir mér afhverju ég í ósköpunum haldi að jafn furðulegur fjórfætlingseigandi og ég sjálf muni geta alið upp tiltölulega eðlilegt gæludýr samkvæmt heimsmælikvörðum sem að telur sér ekki trú um að það geti gengið á hvolfi eins og andsetið stúlkubarn á rúmdýnu með tilheyrandi styrjaldaróhljóðum, krafsi og klóri. Hef það í hugsa næst þegar ég vakna upp með harmkvælum haldandi að ég þurfi að eyða þessum laugardagsmorgni í það að skúra upp eigin innyfli. Blessunarlega þarf ég einungis að þurrka af eigin geðheilsu og gera afskaplega heiðarlega tilraun til vakningar.
Mér hafði verið gert það ljóst að ég ætti að sofa og hvíla mig þennan heilaga laugardag. Ég gerði það en það voru engin fyrirmæli gefin um það hvað ég mætti og mætti ekki gera eftir að draumalandsheimsóknartíma lyki. Lagði þar af leiðandi inn formlega beiðni þess efnis til ólögulegs líkama míns hvort hann væri ekki til í að hrista aðeins upp í okkur. Hulstrið (líkaminn) samþykkti það svo við örkuðum af stað saman í Hreyfingu í þeim tilgangi að snyrta kjötið eilítið.
Þær ganga rösklega inn í hópum, dreifa úr sér, týna af sér spjarirnar hver af annarri. Sumar hafa þróað með sér bilaða, háþróaða tækni sem gerir þeim kleyft að komast í sturtuhæft form án þess að skíni í bert hold. Eva Eden væri sjálfsagt búin að hakka í sig heilt bretti af forboðnum eplum úr Bónus í Holtagörðum sæi hún til spéhræðslu íslenskra kvenna í búningsklefum siðlausrar Reykjavíkurborgar. Þegar að fullþroska kvenfólk er farið að melta og japla á eigin handklæði til þess að fela berin og bossann fyrir öðru kvenfólki þá finn ég fyrir meðaumkun. Þið eruð búnar í ræktinni, frekari handklæðisleikfimi er óþörf! Aldrei að brenna meira en maður þarf og allt það! Eva var alveg með þetta, hún og litla pjatlan hennar gengu saman í gegnum súran og sætan frumskóg óvissunnar óhræddar með dúllurnar flaksandi.
Konurnar smjatta á sama hlutnum í er virðist marga hálftíma. Ég velti því fyrir mér hvort þær hafi jafn gott þol í ræktinni og þær hafa í kjálkunum til að þvarga um það í hvert skipti sem þær hittast í mátunarklefanum hvað það sé dásamlegt að mæta svona snemma í ræktina um helgar því þá sé allur dagurinn eftir. Ég fjarlægi sjálfa mig úr þessum aðstæðum, spígspora upp stigann og tel mér trú um að minn dagur verði jafn æðislegur og þeirra eftir spriklið.
Átta mig á því eftir um það bil fimm mínútur á skíðatækinu að ég ætti betur að hætta að dæma þessar duglegu konur sem rifu sig upp á laugardagsmorgni því ekki hef ég nokkurt einasta þol í að mæla einu sinni stakt orð vegna töluverðrar mæði eftir nokkrar mínútur í level 5!
Lovemail, hatemail og allar græjur allt vel þegið innan skynsamlegra marka! Það er með öllu óheimilt að taka þetta blogg alvarlega eða hátíðlega.. :)
Kveðja,
Anna
Kunnuglegt en jafnframt pirrandi væl í eyrum mínum fær mig til þess að rísa upp frá dauðum. Ofurlítil skíma af dagsljósi sleppur inn fyrir augnlokin í annars rökkvuðu svefnherbergi. Það rennur upp fyrir mér að ég geymi enn öll iðrin mín í einangruðu svartholi sem ég kýs að kalla maga í hversdagslegu tali. Í framhaldi af því skáskýt ég glyrnum mínum að kisa sem starir sakleysislega á mig tilbaka, teygir úr sér líkt og til þess að gera jafn lítið úr aðstæðunum og hann getur, plantar sér síðan góðlátlega ofan á andlitið á mér án þess að gera sér nokkurra grein fyrir því að ég er enn að jafna mig eftir "spiderman catwalk" atriðið vinsæla sem á sér stað reglulega undir rúminu mínu.
Ég var aldrei venjuleg, hvorki í dag né í gær. Velti því fyrir mér afhverju ég í ósköpunum haldi að jafn furðulegur fjórfætlingseigandi og ég sjálf muni geta alið upp tiltölulega eðlilegt gæludýr samkvæmt heimsmælikvörðum sem að telur sér ekki trú um að það geti gengið á hvolfi eins og andsetið stúlkubarn á rúmdýnu með tilheyrandi styrjaldaróhljóðum, krafsi og klóri. Hef það í hugsa næst þegar ég vakna upp með harmkvælum haldandi að ég þurfi að eyða þessum laugardagsmorgni í það að skúra upp eigin innyfli. Blessunarlega þarf ég einungis að þurrka af eigin geðheilsu og gera afskaplega heiðarlega tilraun til vakningar.
Mér hafði verið gert það ljóst að ég ætti að sofa og hvíla mig þennan heilaga laugardag. Ég gerði það en það voru engin fyrirmæli gefin um það hvað ég mætti og mætti ekki gera eftir að draumalandsheimsóknartíma lyki. Lagði þar af leiðandi inn formlega beiðni þess efnis til ólögulegs líkama míns hvort hann væri ekki til í að hrista aðeins upp í okkur. Hulstrið (líkaminn) samþykkti það svo við örkuðum af stað saman í Hreyfingu í þeim tilgangi að snyrta kjötið eilítið.
Þær ganga rösklega inn í hópum, dreifa úr sér, týna af sér spjarirnar hver af annarri. Sumar hafa þróað með sér bilaða, háþróaða tækni sem gerir þeim kleyft að komast í sturtuhæft form án þess að skíni í bert hold. Eva Eden væri sjálfsagt búin að hakka í sig heilt bretti af forboðnum eplum úr Bónus í Holtagörðum sæi hún til spéhræðslu íslenskra kvenna í búningsklefum siðlausrar Reykjavíkurborgar. Þegar að fullþroska kvenfólk er farið að melta og japla á eigin handklæði til þess að fela berin og bossann fyrir öðru kvenfólki þá finn ég fyrir meðaumkun. Þið eruð búnar í ræktinni, frekari handklæðisleikfimi er óþörf! Aldrei að brenna meira en maður þarf og allt það! Eva var alveg með þetta, hún og litla pjatlan hennar gengu saman í gegnum súran og sætan frumskóg óvissunnar óhræddar með dúllurnar flaksandi.
Konurnar smjatta á sama hlutnum í er virðist marga hálftíma. Ég velti því fyrir mér hvort þær hafi jafn gott þol í ræktinni og þær hafa í kjálkunum til að þvarga um það í hvert skipti sem þær hittast í mátunarklefanum hvað það sé dásamlegt að mæta svona snemma í ræktina um helgar því þá sé allur dagurinn eftir. Ég fjarlægi sjálfa mig úr þessum aðstæðum, spígspora upp stigann og tel mér trú um að minn dagur verði jafn æðislegur og þeirra eftir spriklið.
Átta mig á því eftir um það bil fimm mínútur á skíðatækinu að ég ætti betur að hætta að dæma þessar duglegu konur sem rifu sig upp á laugardagsmorgni því ekki hef ég nokkurt einasta þol í að mæla einu sinni stakt orð vegna töluverðrar mæði eftir nokkrar mínútur í level 5!
Lovemail, hatemail og allar græjur allt vel þegið innan skynsamlegra marka! Það er með öllu óheimilt að taka þetta blogg alvarlega eða hátíðlega.. :)
Kveðja,
Anna
Tuesday, January 17, 2012
Hrátt blogg :)
Í ljósi þess að vinsældir gamla bloggsins voru gríðarlegar (hef fengið í hendurnar mjög flóknar tölfræðilegar upplýsingar sem gáfu það til kynna að um fimm fastagesti var að ræða og enga ófasta gesti sem fylgdust með blogginu heitna, sem verður að teljast hreint ótrúleg aðsókn) þá hef ég ákveðið að þjófstarta nýrri þankalaug.
Hér verður hægt að fylgjast með hinu lítríka lífi á Hverfisgötunni ft. Harpa, Anna og loðboltarnir, heilsuátaksárangri (þær færslur verða síðan teknar saman í sérlegt bókabindi: "Sérlegar afsakanir" og ef guð gefur okkur: "Afsakanir framhald II". Get ekki ímyndað mér annað en að femin.is verði æst í að selja þessar elskur eins og heitar lummur. Virkileg þörf er fyrir safn afsakana fyrir fólk eins og mig.. T.d. er orðið mjög þreytt að vera ristarbrotin í þriðja sinn) og hreinlega allt sem að mér dettur í hug að þvarga um.
Bloggið er hrárra en sushi enn sem komið er og allir hata sushi (Ekki reyna þetta, þó það sé borið fram með hallarmáli, ferkantað, hornrétt, prjónætt og í dásamlegum plastbakka með loki skreyttu með slaufu þá er þetta hráætis- og hrægammarán um hábjartan dag og verður ekki samþykkt til átu í nánustu framtíð). Ég lappa upp á síðuna fljótlega :)
Kveðja, Anna Ýr
Hér verður hægt að fylgjast með hinu lítríka lífi á Hverfisgötunni ft. Harpa, Anna og loðboltarnir, heilsuátaksárangri (þær færslur verða síðan teknar saman í sérlegt bókabindi: "Sérlegar afsakanir" og ef guð gefur okkur: "Afsakanir framhald II". Get ekki ímyndað mér annað en að femin.is verði æst í að selja þessar elskur eins og heitar lummur. Virkileg þörf er fyrir safn afsakana fyrir fólk eins og mig.. T.d. er orðið mjög þreytt að vera ristarbrotin í þriðja sinn) og hreinlega allt sem að mér dettur í hug að þvarga um.
Bloggið er hrárra en sushi enn sem komið er og allir hata sushi (Ekki reyna þetta, þó það sé borið fram með hallarmáli, ferkantað, hornrétt, prjónætt og í dásamlegum plastbakka með loki skreyttu með slaufu þá er þetta hráætis- og hrægammarán um hábjartan dag og verður ekki samþykkt til átu í nánustu framtíð). Ég lappa upp á síðuna fljótlega :)
Kveðja, Anna Ýr
Subscribe to:
Posts (Atom)