Innyflin eru klóruð úr mér, hvert á eftir öðru. Má skeifugörnin að minnsta kosti verða eftir? Svo svangi maginn minn fái aftur að borða, geriði það?
Kunnuglegt en jafnframt pirrandi væl í eyrum mínum fær mig til þess að rísa upp frá dauðum. Ofurlítil skíma af dagsljósi sleppur inn fyrir augnlokin í annars rökkvuðu svefnherbergi. Það rennur upp fyrir mér að ég geymi enn öll iðrin mín í einangruðu svartholi sem ég kýs að kalla maga í hversdagslegu tali. Í framhaldi af því skáskýt ég glyrnum mínum að kisa sem starir sakleysislega á mig tilbaka, teygir úr sér líkt og til þess að gera jafn lítið úr aðstæðunum og hann getur, plantar sér síðan góðlátlega ofan á andlitið á mér án þess að gera sér nokkurra grein fyrir því að ég er enn að jafna mig eftir "spiderman catwalk" atriðið vinsæla sem á sér stað reglulega undir rúminu mínu.
Ég var aldrei venjuleg, hvorki í dag né í gær. Velti því fyrir mér afhverju ég í ósköpunum haldi að jafn furðulegur fjórfætlingseigandi og ég sjálf muni geta alið upp tiltölulega eðlilegt gæludýr samkvæmt heimsmælikvörðum sem að telur sér ekki trú um að það geti gengið á hvolfi eins og andsetið stúlkubarn á rúmdýnu með tilheyrandi styrjaldaróhljóðum, krafsi og klóri. Hef það í hugsa næst þegar ég vakna upp með harmkvælum haldandi að ég þurfi að eyða þessum laugardagsmorgni í það að skúra upp eigin innyfli. Blessunarlega þarf ég einungis að þurrka af eigin geðheilsu og gera afskaplega heiðarlega tilraun til vakningar.
Mér hafði verið gert það ljóst að ég ætti að sofa og hvíla mig þennan heilaga laugardag. Ég gerði það en það voru engin fyrirmæli gefin um það hvað ég mætti og mætti ekki gera eftir að draumalandsheimsóknartíma lyki. Lagði þar af leiðandi inn formlega beiðni þess efnis til ólögulegs líkama míns hvort hann væri ekki til í að hrista aðeins upp í okkur. Hulstrið (líkaminn) samþykkti það svo við örkuðum af stað saman í Hreyfingu í þeim tilgangi að snyrta kjötið eilítið.
Þær ganga rösklega inn í hópum, dreifa úr sér, týna af sér spjarirnar hver af annarri. Sumar hafa þróað með sér bilaða, háþróaða tækni sem gerir þeim kleyft að komast í sturtuhæft form án þess að skíni í bert hold. Eva Eden væri sjálfsagt búin að hakka í sig heilt bretti af forboðnum eplum úr Bónus í Holtagörðum sæi hún til spéhræðslu íslenskra kvenna í búningsklefum siðlausrar Reykjavíkurborgar. Þegar að fullþroska kvenfólk er farið að melta og japla á eigin handklæði til þess að fela berin og bossann fyrir öðru kvenfólki þá finn ég fyrir meðaumkun. Þið eruð búnar í ræktinni, frekari handklæðisleikfimi er óþörf! Aldrei að brenna meira en maður þarf og allt það! Eva var alveg með þetta, hún og litla pjatlan hennar gengu saman í gegnum súran og sætan frumskóg óvissunnar óhræddar með dúllurnar flaksandi.
Konurnar smjatta á sama hlutnum í er virðist marga hálftíma. Ég velti því fyrir mér hvort þær hafi jafn gott þol í ræktinni og þær hafa í kjálkunum til að þvarga um það í hvert skipti sem þær hittast í mátunarklefanum hvað það sé dásamlegt að mæta svona snemma í ræktina um helgar því þá sé allur dagurinn eftir. Ég fjarlægi sjálfa mig úr þessum aðstæðum, spígspora upp stigann og tel mér trú um að minn dagur verði jafn æðislegur og þeirra eftir spriklið.
Átta mig á því eftir um það bil fimm mínútur á skíðatækinu að ég ætti betur að hætta að dæma þessar duglegu konur sem rifu sig upp á laugardagsmorgni því ekki hef ég nokkurt einasta þol í að mæla einu sinni stakt orð vegna töluverðrar mæði eftir nokkrar mínútur í level 5!
Lovemail, hatemail og allar græjur allt vel þegið innan skynsamlegra marka! Það er með öllu óheimilt að taka þetta blogg alvarlega eða hátíðlega.. :)
Kveðja,
Anna
Gætir þú lýst kvennaklefanum betur og þeim sem voru í honum?
ReplyDeleteÉg skal vinna með þessa hugmynd betur í næsta búningsklefabloggi ;-)
Delete