Afhverju átti ég svona mörg stykki? Heil hrúga af þeim í botni fataskápsins. Vitræna.
Þessar dökkbláu störðu á mig með fíngerðu sikk-sakk augnaráði. Þær höfðu ekki umvafið mig í hálft ár að minnsta kosti. Ég hlýt að vera að tapa glórunni. Gallabuxur geta vissulega valdið mannorðssviptingu komi menn þeim ekki upp um sinn óæðri enda, en þær eru alls kostar ófærar um að horfa á nokkurn mann.
Skyndilega birtist önnur skálmin út á mitt plastparketlagt gólfið. Örvæntingarfullt hjarta mitt sló í takt við aðstæðurnar. Líkami minn staðnaði í augnablikinu en heilabúið hafði aldrei verið jafn árvökult og nú. Skálmaropið dró sig saman, hægt en ákveðið og myndaði ógnvænlega öfugsnúna skeifu. Tók það síðan óvænta stefnubreytingu og virtist undir lokin brosa til mín á værukæran og móðurlegan máta.Mér tókst að sýna merki um meðvitund og tyllti höfðinu til hliðar.
"Viltu ekki prófa?" mælti buxnaskálmin pollróleg.
"Prófa?" svaraði ég án þess þó að botna nokkuð í því afhverju ég sæti hér varnarlaus á rúminu mínu, kviknakin, nývöknuð og snargeðveik að vanda haldandi uppi stórundarlegum samræðum við ítalskar gallabuxur.
"Ég held þú komist í." segir skálmin siðblinda. Dauðir hlutir hafa ekkert með það að gera að vera að tjá sig á fimmtudagsmorgnum.
"Því trúi ég nú tæplega mín kæra" segi ég og fyllist skammvinnum viðbjóði þegar ég horfi niður á lær mér. Glætan! Næsta víst er að ég rís upp steinhissa á því að hríðskjálfandi leggirnir beri mig og leiði mig í humátt að nærfataskúffunni. Svart, svart skal það vera í stíl við þetta frábæra morgunatriði þrátt fyrir marga litríka möguleika. Mér verður litið í spegilinn, sem sýnir mér grámyglaðan og hversdagslegan raunveruleika haldast í hendur í annars saklausum nærfötum. Ákveð að hegna sjálfri mér við betra tækifæri fyrir það eitt að geta ekki einu sinni verið glaðleg innan klæða.
Ríf málglöðu brækurnar upp af gólfinu og treð mér í þær með offorsi svo ég þaggi örugglega í þeim og endurheimti heilbrigt geðrænt ástand að nýju. Mér til mikillar undrunar komast þær upp um mig. Jókerinn hefur líka verið unninn á þessum lottómiða því að ég get líka hneppt! (yesss!) Mér rennur reiðin samstundis og strýk lærin í þeim tilgangi að þakka buxunum greiðann, munnræpuna og frekjuna.
Heilsuátakið mikla hefur nú varað í rúmar tvær vikur og ég gleðst mikið yfir litlum sigrum líkt og þessum.
Það er eins gott að ég fái fría heimsendingu af svona draumaprins með næstu gallabuxum! :)
Veriði óhrædd lömbin mín, ég mun aldrei tala við gallabuxurnar mínar fyrir framan ykkur. En í guðs bænum ekki þagna! :)
Kveðja,
Anna létt á brá!
hahaha þú ert endalaus snillingur!! Ég ætla að mæta seinna í vinnuna á næstunni og heyra samræðurnar sem þú átt við fötin þín ;)
ReplyDeleteKv,
Harpa
hahaha algjörlega worth it örugglega ;-)
ReplyDelete