Tuesday, April 23, 2013

Kroppastoppið

Hafið þið lent í STOPPI? Þá meina ég Kroppastoppi? Ég lenti í svoleiðis fyrir rúmri viku. Búin að vera að gera allt rétt en ekkert gerist! Hversu svekkjandi? HVERSU? Mjög...
Nema svo áttaði ég mig á því að þetta var bara allt mér að kenna en ekki ósamvinnuþýðum skrokki. Það er víst þannig að helgarnar (föstudagskvöld-laug-sun) eru um það bil þriðjungur af vikunni. Er þá ekki allt í lagi að fá sér ís á föstudegi, borða steik og fara á djammið á laugardegi og svo taka þynnkumat á sunnudegi og nammi, detta svo inn í fullkomna viku næstu 4 daga og ná frábærum árangri! Hmmm..
Ekki alveg.
Ég átti alveg að vita þetta en var ekki búin að ná alveg tökum á þessum blessuðu helgum sem virðast alltaf setja mann í einhvern óhollustu rússíbana án þess að maður átti sig nokkuð á því fyrr en á mánudegi þegar öll vinna síðastliðnar viku virðist fyrir bí.



Ráð til þess að ná tökum á helgunum:

Takmarka djamm eða taka edrú-djamm og massa vatnsdrykkjuna í staðinn fram á rauða nótt :)
Ræktin er þinn besti vinur um helgar.
Hafa nóg fyrir stafni.

Átta sig á því að föstudagur er VIRKUR dagur.
Líklegt er að kræsingar bjóðist á laugardegi eða sunnudegi og er þess vegna betra að eiga slíkan munað inni.
Gera allt til þess að komast í ræktina eftir vinnu, þá er ekki jafn gaman að "eyðileggja" ræktina með svindli.
Fá sér eitthvað óvanalegt í kvöldmat en gæta hófs og hollustu.
Útbúa exótíska ávaxtaskál með spennandi berjacombói

Vertu þessi týpa á föstudagskvöldum

Laugardagar eru nammidagar! Er það ekki? Nei, ekki nema þú viljir að það sé svindlið þitt.
Vertu búin að hugsa út í það hvað verður svindlið þitt. Verður það ís, nammipoki, snakk eða jafnvel sveitt máltíð? Þú mátt ekki fá allt! Verður að velja og velja rétt :)
Nammið má ekki duga fram á næsta dag. Því að þá er næsta víst að það verði klárað daginn eftir. 
Þú þarft ekki að velja svindl ef þig langar það ekki. Ekki gera það bara af því að þú "átt" að gera það. 
Reyndu að takmarka svindltímann við nokkrar klst en ekki allan daginn.
Frábært að henda inn góðri brennslu inn í nammidaginn. Þá líður manni ofsalega vel í svindlstundinni. Eftirbruninn í lærunum alveg þvílíkt að vinna á lakkrísnum!!! ;)

Ekki vera þessi gæi á laugardögum

Sunnudagar eru framhaldsnammidagar er það ekki? Nei. 
Hvar er nammipokinn/snakkpokinn frá því í gær? Þú átt annað hvort að segja að hann sé búinn eða að þú vitir ekki um hann því þú baðst einhvern um að fela hann fyrir þér rétt áðan. Húsleit er ekki í boði heldur. 

Frjálst að skipta út sunnudegi/laugardegi að vild :)


Ég fékk mér nammi í gær, þó ekki þetta týpíska heldur "hollustunammi". Vissulega er það stútfullt af kaloríum en mér líður miklu betur af því heldur en Hagkaupsnamminu.

Mmmm namm jógúrtbananar!

Blandað við Wasabi hnetur!! Sjúkt gott!

Virkilega góð helgi að baki, hlakka til að takast á við komandi viku :)


Anna











Wednesday, April 17, 2013

Húsmóðirin lætur til sín taka

Hef verið ansi myndarleg í eldhúsinu upp á síðkastið og langar að deila með ykkur einfaldri og góðri uppskrift að niðurskornu epli með hjálp EP3000 = EPLASKERI 3000. Ég verð nú bara hreinlega að deila þessari endalausu snilld með ykkur! Nei okei hann heitir ekki svona kúl nafni, þetta er bara venjulegt plastdót úr IKEA.. en mikið er ég hrifin af þessum einfalda hlut. Ég tók sem betur fer myndaseríu af þessu fyrir ykkur svo þið mynduð skilja hvað ég væri að tala um. 

Uppskrift að niðurskornu epli

 Til vinstri á myndinni má sjá grænan eplaskerann og þetta rauða á myndinni er safaríkt FUJI epli úr hagkaup. Verið viss um að rugla ekki þessu tvennu saman. 

Nú stillum við upp eplaskeranum ofan á mitt eplið og voila! Komið fallegt eplablóm!  

Losum eplið úr EP3000 og njótum. Afar hentugt líka fyrir gæludýraeigendur eins og mig sjálfa sem eiga kött sem að borðar ávexti. Hagstæðara er að hafa niðurskorið epli í stað þess að hafa óniðursneitt epli svo að kötturinn geti fengið einn bát en ekki byrjað að sleikja allt eplið! Þá eru góð ráð dýr og þá meina ég að ég fer á hausinn ef að kötturinn ætlar að fara að slátra heilu Fuji epli.


Verði ykkur að góðu 
Ykkar ráðagóða Anna



Tuesday, April 16, 2013

38 ára mítan

Löngu löngu löngu kominn tími til þess að dusta rykið af þessari blessuðu bloggsíðu! Ég held ég hafi verið tuttuguogeitthvað þegar ég kom hingað inn síðast.. er það jú víst ennþá en upplifi mig eitthvað svo hrikalega gamla núna þegar ég er að fara að slefa upp í 27 ára. Líður eins og ég geti bara sleppt þessu og orðið þrítug næst fyrst ég ætla að láta svona! Enda er 27 algjörlega tilgangslaus aldur.. annað hvort eiga menn að vera 20, 25 eða 30. 

Ég er nokkuð viss um að ef ég væri bara orðin þrítug þá væri fólk líka búið að gefast upp á því að ég færi að skjóta út kríli. Á þessum gullna aldri 25-30 þá er maður dæmdur til þess að vera farin að huga að barneignum en þegar menn eru orðnir 30 þá er fólk farið að gruna að mann langi kannski bara ekkert í krakka. Ég velti þessu stundum fyrir mér þar sem fólk virðist skjóta því að á ótrúlegustu tímum að ég sé nú farin að spá virkilega í þessu sem er alls ekki raunin en ég er búin að fá staðfest frá kvensjúkdómó að ég þurfi ekki að hafa neinar áhyggjur af fersku eggjunum fyrr en ég verð 38 ára gömul. Fékk nefnilega smá ótímabært æðiskast um daginn þegar ég þurfti að fara í "sónar".. já það var nú ekki tilkomið vegna sníkjudýrs í mallakút heldur blöðrubólgu. Þá var mér tilkynnt af kvensjúkdómó að fersku eggin væru skoppandi kát í eggbúinu sínu tilbúin að láta frjóvga sig. Það eina sem ég heyrði var: "Sjáðu öll þessi fínu egg sem eru AÐ DEYJA SMÁTT OG SMÁTT" arrrrg!! En ég var svo róuð niður með 38 ára mítunni og hef ekki leitt hugann að þessu lengi. 



Það sem að kvensjúkdómó sá

Það sem að ég sá fyrir mér


En ég þarf nú víst ekki að hafa miklar áhyggjur af því að verða gömul þar sem að ég er víst enn spurð í sundi hvort ég sé orðin 17 ára. Þó ekki jafn hentugt þegar maður sækir um vinnu og fólk heldur að maður sé enn í menntaskóla. Þetta er svona win-lose situation. Ég mun kunna að meta þetta síðar.

En það sem að er svona aðallega í gangi hér á þessum bænum er að sjálfsögðu að halda ungleikanum í hámarki. Fer ekki út úr húsi án þessa gimsteins:

Sem sagt brúsinn a.k.a. "Skvísan" en ekki gervi-kaktusinn mér fannst hann bara passa svo vel við þessa grænu kaktusa svo ég ákvað að taka svona lekkera mynd af þessu saman. Bæði er þetta jú svo hollt og gott! Vatn í brúsa og öööö.. gervikaktusar..  nevermind..

Ég er alls ekki hissa á því að þið skiljið ekki afhverju ég kalla brúsann minn "Skvísu". Ég mætti nefnilega á Herbalife ráðstefnu um daginn og þá var endalaust verið að tala um einhverja skvísu sem væri í verðlaun. Maðurinn stóð uppi á sviði með pakka fullan af herbalife-dóti og sagði alltaf "já og svo er að sjálfsögðu skvísa með í pakkanum"... hmmmm skvísa? Er þá mynd af skvísu? Er dagatal í þessu með skvísum? Svona pepp fyrir herbalife fólkið að sjá flottar skvísur!!! Já ég skil þetta núna! Maðurinn sem gaf verðlaunin átti líka kærustu sem var algjör skvísa svo hann hlaut að vita hvaða konur væru skvísur og hverjar ekki! Aldeilis!
Ég spurði stelpuna við hliðina á mér samt til öryggis og hún sagði mér að það væri brúsinn.. squeeze = skvísa.  Ahaaaa því maður kreistir brúsann sjáiði til. Já ég veit ég er alltaf seinust að fatta allt! 

En þrátt fyrir allan skvísumisskilning þá er ég ekkert að misskilja vatnsþörfina mína á hverjum degi sem er 2L í það minnsta. 8 lítil glös af vatni eða svona ca 4 brúsar af skvísu! Það er samt bannað að svindla og gúlpa í sig heilum í einu! Trikkið er að vera að súpa allan daginn. Þá höldum við vatnsbúskapnum í góðu jafnvægi og aukum brennsluna. Hver vill ekki brenna meiru bara með því að drekka vatn! Réttiði upp hönd! Jæja ég er farin að hljóma eins og Marteinn Lúther.. ætla að fara í ræktina með mömmu minni sem ætlar að kjötsnyrta barnið sitt í Laugum á þessum fallega degi!

Ræktarlag vikunnar, eitt gamalt og gott!:




Hvet alla til að drekka meira vatn!!
Gleði gleði!

Knús 
Anna



Friday, July 27, 2012

Sögustund


Er undir áhrifum Bridget Jones. Hef komist að því af eigin rammleik að breska er í raun frekar torskilt tungumál. Eftir að hafa komist í gegnum helming bókarinnar án teljandi vandræða þannig lagað þá fékk ég að lokum nóg af sjálfri mér því sumt gat einfaldlega ekki staðist. Googlaði orðið "fag" því ekki gat það verið að helmingur persóna í bókinni spyrðu Bridget hversdagslega hvort hún væri með eins og eitt stykki samkynhneigðan karlmann á sér (undirrituð hugsaði með sér að varla gengju bretar með homma á sér.. eða hvort það væri kannski normið að eiga gay vin væri maður ung og efnileg framakona líkt og Bridget sjálf). 

"Bridget, do you have a fag?"

Bridget: "...have given up on fags.."

Að auki virtist hún vera viðstöðulaust að hætta að nota homma og síðan hafið notkun á þeim á ný. Hvers lags notkun það var á þessum mönnum fylgdi aldrei sögunni. 



Leitarvélin Google leiddi mig í sannleikann um hið sérlega orð "fag". Er þetta slanguryrði yfir sígarettu.. sem mætti ef til vill útfærast sem "retta" á góðri íslensku.

Við þessa merku uppgötvun hefur skilningur minn á veröld Bridget aukist til muna. Enn er er óvíst hvort lestur þessarar bókar er undirritaðri til framdráttar í lífinu almennt og hvort greindarvísitala lesenda bókarinnar muni hríðlækka með hverri lesinni blaðsíðu.

Ég er að minnsta kosti að skemmta mér ágætlega við lesturinn :)

XoXo
Anna :)

Wednesday, May 30, 2012

Hverfismyndablogg


Myndirnar segja alla söguna.. njótið vel! 


"Anna veistu hvað! Við erum komnar með ávaxtaskál!" var það sem ég fékk að heyra einn daginn þegar ég kom heim úr vinnunni. Óhætt er að segja að ávaxtaskálin var aftur kominn á sinn stað inn í skáp, ávaxtalaus, viku síðar. Einhver gleymdi að útskýra fyrir Hörpu að ávextir skemmast ef þeir eru á borðinu að marinerast í marga daga.




Við erum með fullkomna afsökun fyrir uppvasksleysi.. það eru  óprúttnir loðnir aðilar sem halda til í vöskunum.

Uppáhalds koddaverið mitt.. RIP. Móðir mín hafði ótal sinnum dæmt það til ævilangrar tuskuvistar í  tuskuskúffunni miklu inni í þvottahúsi. Ég bjargaði því alltaf jafnóðum.

Ég gat ekkert frekar sætt mig við dauða koddaversins, þess vegna hefur það öðlast nýtt hlutverk. Sem smekkur fyrir barnið sem við Harpa ætlum að eignast. Hér er smekkurinn frumsýndur í frábærum náttbuxum og jólainniskóm.

Við erum ekki með styttur í gluggunum.. 

Tveggja mánaða skammtur af hvítu sokkunum mínum, nýþvegnir og fínir.  Það tekur aðeins nokkrar klukkustundir að para þá saman... hentugt!

Nýi heimasíminn. Hann er að sjálfsögðu enn ótengdur. En gegnir engu að síður mikilvægu hlutverki í heimilislífinu. Harpa fékk að taka fyrsta símtalið sem var ótengt.

Hún fékk sláandi fréttir í gegnum fiðrað tólið.

Áttaði sig svo á því að síminn var ekki tengdur og var ánægð með að hún fékk kannski ekki svo slæmar fréttir.

Frystirinn okkar. Hér hefur mjög nýlega sprungið pepsi og bjór. .. nánar tiltekið fyrir nokkrum mánuðum. 

Skipulagshillan fyrir ofan ísskápinn. Ef maður finnur ekki eitthvað. Þá er dótið þarna.

Ég verð nú að setja inn nokkrar sætar af okkur hjónunum í sólinni á Café Paris í gær. 

Eiginlega alveg eins mynd.. alltaf ein til vara.

MR-ingarnir að njóta lífsins.

Smá teppastemmari í lokin.. :)

Sumarkremj og knús!

Friday, February 17, 2012

Vináttan

Gráferskt morgunloftið tók á móti mér þegar ég lauk upp dyrunum. Eins og köld sæng sem hefur verið viðruð í vorloftinu sem þú rífur af snúrunni og faðmar fast þá langaði mig að taka þennan morgunn í fangið á mér og kremja hann í örmum mér. Ég hafði lifað þónokkuð marga laugardagsmorgna um ævina en sjaldnast nýtt þá í dularfullt miðbæjarrölt. Hví nú? Hví ekki að halda uppteknum hætti?

Upptekinn háttur: 
Söðla um í blekkingarleiknum ógurlega sem hefst á föstudagskvöldum. Raða ofan í bleiku íþróttatöskuna ræktarfötunum á hnitmiðaðan hátt. 
Reyna að telja sér trú um að fjólubleiki adidas toppurinn sé ekki of fleginn fyrir ræktina og að þú ætlir algjörlega að mastera það átfitt í leikfimi á morgunn.
Setja niður annan íþróttatopp því þú veist að þú ferð síðan ekkert í skvísudæmið þrátt fyrir háleitar hugmyndir á aðfaranóttu æfingar. 
Setja niður hettupeysu því ekki viltu vera að menga augu meðræktarmanna með snjóhvítum, vantónuðum handleggjum. 
Stilla vekjaraklukku á óguðlegan tíma. 
BÁÐAR! 
Vera með 80.000 afsakanir á reiðum höndum fyrir því að að sé hrikalega óþroskuð hugmynd að mæta í Hreyfingu á því augnabliki sem vekjarinn hringir. 
Vakna eftir hádegi, teygja sig og toga, strjúka kviðinn og hefja hefðbundna hárreytingu sem endurspeglar áhyggjur þess efnis að ræktartaskan standi enn óhreyfð á miðju gólfi. 
Að vakningu lokinni telja sér trú um að ekki sé hægt að fara í ræktina að svo stöddu því aðeins séu 5 klst í lokun.

Hví ó hví?

Gamall vinur hafði óskað eftir aðstoð minni við val á fatnaði fyrir kvöldið. Við höfðum fyrir löngu síðan átt eitt kvöld saman, kvöld sem fékk mig til þess að efast um eigið ágæti í örskamma stund, kvöld sem ég hafði grafið og geymt. En ekki...

Vinátta. Hvernig virkar hún eftir svona uppákomur?

Þurr mölin tvístraðist undir flatbotna skónnum, úði féll og væða tók. Líf kviknaði á Laugaveginum. Ég sá hann nálgast óðfluga úr fjarska röskum skrefum. Hélt niðri í mér andanum. Líklegast var þetta rómantískasta órómantíska stefnumót sem ég hafði nokkurn tíma farið á. Regnið sem hafði gert sér það að góðu að setjast að í hárinu á mér eyðilagði annars ómögulegt hárið á mér, varð villt og úfið, en mér stóð á sama því ég þurfti ekki að vera óaðfinnanleg á þessari stundu. Fólkið var fullkomið, Laugavegurinn líflegur og regnið róaði mig.
Ég hafði gleymt hversu erfitt var að horfast í augu við hann. Brúnt og svart mættist í óraunverulegum skýrleika. Við gengum hægum skrefum í átt að engu. Fundum allt sem við leituðum að nema nákvæman tilgang þessarar verslunarferðar.



Takmarkinu hafði verið náð en við vildum ekki skilja hvort við annað. Við höfum staðnæmst á miðju Ingólfstorgi á meðal miðbæjarrottanna sem þutu framhjá okkur hver af annarri líkt og þúsundir rafeinda í leit að plús. Við vorum tvær óhlaðnar eindir, núllstilltar og leituðum einskis.

Regndropi draup niður á dökk augnhárin, sem við það blikkuðu tíðar. Dropinn lagði leið sína niður kinnar hans og minnti á líðandi tár. Tár sem aldrei yrði grátið mín vegna. Á þessu augnabliki leyfði ég mér að horfa á hann án þess að skammast mín. Ég virti fyrir mér línuna sem kjálkabeinið myndaði undir sléttri húðinni, svart sítt hárið, dökka augnumgjörðina og svartnættið í augum hans sem fangaði mosann í mínum. Hann steig skrefi nær mér svo ég gat heyrt taktfastan andardráttinn dynja á mér. Stakk svo upp á kaffi.



Ég var ekki þessi gerð sem fékk sér rándýran Americano en gerði það samt. Því í dag var ég ekki ég. Ég var Anna tveimur árum áður, hún gerði þessa hluti. Hún gerði það sem skilgreindi allt annað en hana. Hún var þessi gerð fyrir hann. Bara fyrir hann.

Nóttin í augum hans varð myrkari með hverjum sopanum á eftir öðrum svo ég gat ómögulega ráðið hvar svart hófst og brúnt endaði. Birtan í brosi hans lýsti upp andlit hans og skein á mig, blindandi svo ég átti erfitt með að stíga inn í rökkvaða spegla sálar hans. Við ræddum hluti sem óhætt var að ræða við manneskju sem hafði mörgum mánuðum áður haldið jafn fast utan um þig og þú um hana. Ómerkilegir hlutir. Óraunveruleg vandamál. Hann brosti sínu breiðasta og ég fann hvernig þörf mín fyrir samþykki hans jókst.

Hann reisti aðra höndina og strauk bikasvörtu hárinu á bakvið annað eyrað og horfði stíft á mig. Nappaði sjálfa mig við hið glæpsamlega athæfi að óska þess í hljóði að hann hefði strokið mínu hári á sama hátt.

Vinátta.

Ég hafði aldrei verið sérstök í hans augum. Hví nú? Svarið við þeirri spurningu var að ég var það ekki nú og hafði aldrei verið það. Við kvöddumst á þurran máta á annars votum degi. Snertingarleysið öskraði á mig svo það frussaðist yfir mig, við seinni athugun voru það líklegast þó bara rök veðuröflin. Ég gekk frá honum skælbrosandi upp í móti. Leiknum var lokið.

Erum við ekki flest öll sek um að hafa samband við löngu útbrunna loga sem eitt sinn dönsuðu dátt í stónni? Í þetta sinn var ég eldiviðurinn, þó ekki útbrunnin. Það má alltaf kveikja nýjan neista.. hins vegar er vonlaust að hita upp gamla ösku.

Anna Ýr

Wednesday, February 1, 2012

Hvergilandið

Tómt blað. Þetta er ekki einu sinni blað. Tilhugsunin um fjaðurpenna kitlar mig í nefið. Hvað varð um gömlu góðu  blekdollurnar, ritvélarnar og tippexið? Hvenær varð gamalt gamalt og nýtt nýtt?



Ég lít upp frá hinu galtóma blaði og við mér blasir sérkennileg sjón: Harpa skarpa á kafi inni í hinum virðulega ísskáp öll á ská og skjön á fullu að leysa eitthvað verkefni. Harpa hverfur lengra inn í ísskápinn svo ég varla sé í litla græna kjólinn hennar lengur. Þessi annars annkannalega sjón fær mig til þess að velta því fyrir mér hvort að ísskápurinn gæti verið anddyri inn í næstu veröld. Mig langar þá með. Hún keypti jú óhugnalegt magn af piparosti um daginn sem gæti hafa verið dulbúinn farmiði inn í þetta undraverða undraland. Ég toga aðeins í hárið á mér og nudda á mér augun.
"Það er allt að frjósa inni í þessum skáp" Harpa er greinilega ekki að borga sig inn með piparosti og ég er ekki að fara að hitta Michael Jackson í Hvergilandi.
"Ef að ég er að hækka þá er ég að lækka... eða bíddu" Harpa grunar ísskápinn um græsku.
Góði eiginmaðurinn sem ég er, stendur upp og sinnir henni. Hún er ekki sátt við blekkingarmátt ísskápsins sem hefur miskunnarlaust ruglað hana í ríminu og skellir hurðinni aftur. Ég kveð Michael í hljóði. Ég vernda karlmennsku mína líkt og eigið hold og blóð, þykist vita nákvæmlega hvað amar að ísskápnum og geng stolt frá loknu verki.


"Hvað segirðu?" Roðinn í kinnum hennar dofnar og græni liturinn í kjólnum spilar aðalhlutverkið á ný. Ljúfan sem hún er sest niður og hlustar á ómerkilegt rausið í mér.
"Það fékk mig virkilega til að hugsa" segi ég. "Ég hitti fyrir konu í dag. Hún sagði mér að það mætti enginn vera gamall á Íslandi í dag. Það væri ekki í tísku og að hér á landi væri æskudýrkun og vegna þessa væri hún undir miklu álagi. Er það satt?"
Konan sem ég þekkti ekki. Konan sem var um fertugt. Konan sem var alvöru kona. Konan sem var falleg. Konan sem hafði ekki hugmynd um það. Á fertugsaldri. Með verulegar íþyngjandi áhyggjur.




Hvað er Ásdís Rán gömul? Hversu gömul lítur hún út fyrir að vera?

Gerviaugnhár, gervibrúnka, barbítennur, litað hár, sléttað hár, krullað hár, klístrað gloss, vöxuð píka (já ég sagði píka og vax líka -  í sömu setningu), gervineglur og síðast en ekki síst gervibros.

Höldum áfram.. tómt wordskjal, tómt blað, gömul ritvél, fjaðurpenni?

Ég tilbið fallega gamla ritvél og fjaðurpenna af gamla skólanum sem kitlar mig í nebbann.



Hendi niður wordskjalinu sem er ekkert nema ómerkilegur gervipappír.

Ég hef í gegnum tíðina stundað þessar fegrunaríþróttir af kappi og ég mun ekki hægja á. Því þá hef ég ekki möguleikann á því að öðlast tímabundna fegurð lengur. En vissulega fær þetta mig til að hugsa. Þarf ég allt þetta til þess að finnast ég falleg þegar ég horfi í spegilinn, er ég tilbiðin ritvél eða er ég tómt wordskjal?

Því verður ekki svarað að sinni.

Eníbení